Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal vekur athygli á því að hægt er að styrkja starfsemi WikiLeaks í gegnum Landsbanka Íslands. Stórar greiðslumiðlanir eins og PayPal, Visa Inc, Matercard Inc. og Bank of America hafa stöðvað greiðslur til WikiLeaks. Wau Holland samtökin í þýskalandi, sem millifærir styrki og greiðir reikninga fyrir WikiLeaks, nota þýska Commerzbank Kassel.

Í umfjöllun Wall Street Journal er farið yfir aukin útgjöld WikiLeaks eftir að ákvörðun var tekin um að greiða völdum starfsmönnum laun. Fyrirkomulagið er sagt álíka því sem Greenpeace samtökin hafa innleitt hjá sér. Talsmaður Wau Holland upplýsir að tekjur WikiLeaks á árinu 2010 séu um ein milljón evra (152 milljónir íslenskra króna). Sagt er að stærsti hluti allra greiðslna til samtakanna komi í gegnum Wau Holland. Í ágúst námu styrkirnir um 765 þúsund evrum.

Síðasta sumar kom fram hjá WikiLeaks samkvæmt WSJ að árlegur kostnaður við reksturinn næmi um 150 þúsund evrum. Nú er kostnaðurinn orðinn 380 þúsund evrur samkvæmt Wau Holland og enn sé ekki búið að færa alla reikninga í bókhaldið. Hluti er vegna kaupa á netþjónustu, tölvum og ferðalaga. En stærsti kostnaðarliður sé vegna launa sem ákveðið var að greiða starfsmönnum eftir miklar rökræður um hvort stíga ætti það skref.

Sá sem hagnast helst á þeirri ákvörðun er forsprakki WikiLeaks, Julian Assange. Launakostnaður hefur þegar numið um 100 þúsund evrum (15 milljónir ISK) og þar af hefur Assange þegið 66 þúsund evrur samkvæmt Wau Holland.