Wall Street Journal birtir í dag niðurstöður skoðanakönnunar á fylgi forsetaframbjóðendanna John McCain og Barack Obama. Í umfjöllun blaðsins segir að niðurstöður kosninganna muni fyrst og fremst ráðast af því hvort bandarískir kjósendur telja Obama nægilega öruggan skipstjóra þjóðarskútunnar.

Sex prósentustigum munar á fylgi Barack Obama og John McCain í nýjust skoðanakönnun. 47% þeirra sem svara sögðust ætla að kjósa Obama á meðan 41% styðja McCain.

55% aðspurðra telja hins vegar Obama vera áhættusamari valkost en 35% McCain.

Hins vegar töldu aðeins 13% svarenda Bandaríkin „vera á réttri leið“ og hefur hlutfall þess hóps aldrei verið lægra í könnun Wall Street Journal. Helsta áhyggjuefni manna er efnahagsástandið en þar ber almenningur lítið traust til beggja frambjóðenda, en 28% hafa trú á því að Obama geti komið Bandaríkjunum á rétta braut í þeim efnum á meðan 17% telja McCain geta það.

Í umfjöllun Wall Street Journal (WSJ) um niðurstöður könnunarinnar segir að niðurstöður kosninganna muni líklega fyrst og fremst ráðast af því hvort almenningur í Bandaríkjunum getur sætt sig við reynsluleysi og fortíð Obama. WSJ segir ýmislegt benda til þess að velgengni Obama sé hverful og að kjósendur sjái McCain sem mun „öruggari“ kost. Telji kjósendur hins vegar hættulaust að kjósa Obama eigi hann sigurinn vísan.

Í Viðskiptablaðinu á morgun er fjallað ítarlega um mun á stefnu Barack Obama og John McCain í efnahagsmálum.