Svo virðist sem efnahagskerfi Tyrklands sé á batavegi þrátt fyrir að það kunni að taka nokkurn tíma fyrir hagkerfið að fara á fullt skrið á ný.

Þetta hefur Wall Street Journal (WSJ) eftir Ibrahim Turhan, seðlabankastjóra Tyrklands en hann var nýlega staddur á ráðstefnu í Þýskalandi þar sem hann sagði að hið versta væri yfirstaðið fyrir Tyrkland.

Það er margt líkt með Tyrklandi og Íslandi. Bæði ríkin hafa farið í gegnum mikla efnahagserfiðleika, bæði ríkin starfa samkvæmt áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og bæði ríkin eru með sinn eigin gjaldmiðil.

Verg landsframleiðsla í Tyrklandi dróst saman um 7% á öðrum ársfjórðungi sem er nokkur breyting frá fyrsta ársfjórðungi þegar samdrátturinn nam 14%.

Fram kemur í frétt WSJ að hagvöxtinn milli ársfjórðunga megi helst rekja til aðgerða stjórnvalda en þó fyrst og fremst vegna mikilla stýrivaxtalækkana tyrkneska seðlabankans sem lækkaði vexti sína úr 16,75% niður í 7,75% frá því í nóvember á síðasta ári.

Turhan segir í samtali við WSJ að stýrivextir seðlabankans þurfi ekki að fara upp í tveggja stafa tölu svo sem lengi sem tyrkneska ríkisstjórnin fylgi eftir ströngu aðhaldi í ríkisfjármálum en skuldir tyrkneska ríkissjóðsins nema um 45% af vergri landsframleiðslu.

Tyrkir eiga enn í viðræðum við AGS um nýtt lán en Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands hefur þó margoft lýst því yfir að Tyrkland muni að öllum líkindum ekki á frekari lánum að halda. Hins vegar hefur ríkisfjármálunum verið stýrt í samráði við AGS.

WSJ segir að greiningaraðilar búist við því að seðlabanki Tyrklands haldi áfram að lækka stýrivexti. Verðbólga hefur lækkað hratt, nam 5,3% í ágúst, en Turhan segir að verðbólga undir 6,5% (sem er verðbólgumarkmið tyrkneska seðlabankans) sé ásættanleg.