Nú beðið þess að Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) úrskurði í einu af stærsta samkeppnismáli sem til er, á milli flugvélaframleiðandanna Boeing og Airbus.

Forsaga málsins er sú að Boeing hefur margítrekað kvartað til WTO vegna bágrar samkeppnisstöðu og saka Airbus um að þiggja bæði beina og óbeina ríkisstyrki Evrópuríkja. Þannig hafi mörg Evrópuríki skuldbundið sig óformlega til að beina viðskiptum sínum til Airbus og hvetji flugfélög og vopnaframleiðendur í löndum sínum til að gera slíkt hið sama.

Á vef BBC kemur fram að Evrópusambandið hefur hins vegar sakað Bandaríkjastjórn um að gera slíkt hið sama, þ.e. að beina viðskiptum sínum frekar til Boeing og hvetja bandarísk flugfélög til þess sama.

Bæði Boeing og Airbus hafa vísað sent inn kvörtun til WTO. Búast má við því að WTO álykti í málinu fyrir áramót að sögn BBC. Rétt er þó að geta þess að það eru komin fimm ár síðan WTO fékk fyrstu kvartanirnar inn á borð sitt.

Reuters fréttastofan fjallar einnig um málið en viðmælendur hennar, sem báðir eru ónafngreindir, eru á báðum áttum yfir því hvernig WTO mun álykta í málinu. Báðir framleiðendurnir hafi nokkuð til síns máls en erfitt sé að skera úr um það hvort annar „hafi meira rétt fyrir sér en hinn,“ eins og það er orðað í frétt Reuters.