Wuhan, höfuðborg Hubei héraðs í Kína, er að rísa upp úr kórónuveirufaraldrinum sem vinsælasti áfangastaður kínverskra ferðamanna. Þetta kemur fram í umfjöllun The Wall Street Journal .

Samkvæmt borgaryfirvöldum í Wuhan sóttu 18,8 milljónir ferðamanna borgina heim á almennum frídögum Kínverja í Gullnu vikunni, sem stóð frá 1. til 8. október, og var borgin vinsælasti áfangastaður landsins. Gullna vikan er stærsta ferðavika Kínverja á hverju ári.

Líkt og alkunna er, á kórónuveirufaraldurinn rætur að rekja til Wuhan borgar, en svo virðist sem sú staðreynd hafi síður en svo neikvæð áhrif á ferðamannaiðnaðinn þar í borg. Fyrsta tilfelli kórónuveirusmits á heimsvísu kom upp í einum af stærstu matarmörkuðum Wuhan borgar undir lok síðasta árs, en í borginni búa um 11 milljónir manns.

Samkvæmt opinberum tölum í Kína smituðust 50.333 einstaklingar af kórónuveirunni í Wuhan og 3.869 létu lífið. Þess má þó geta að einkennalausir smitberar eru ekki taldir með í opinberum tölum í Kína.

Kínverjar stoltir af öruggri Wuhan borg

Þegar faraldurinn blossaði upp í Wuhan var borginni skellt í lás en hún var opnuð á ný í byrjun apríl. Þega síðari bylgja faraldursins tók sig upp í borginni um mánuði síðar var farið í allsherjar skimun á íbúum borgarinnar og lauk skimuninni á aðeins tíu dögum.

Síðan Wuhan náði tökum á síðari smitbylgjunni hafa ekki komið upp smit innan borgarinnar. Öryggi borgarinnar er mikilvægur liður í fyrirætlunum borgaryfirvalda sem snúa að því að glæða ferðamannaiðnað borgarinnar lífi á ný. Borgaryfirvöld hafa viðhaft strangar sóttvarnaaðgerir til að tryggja að borgin haldist veirufrí.

Opinberir Kínverskir miðlar telja að vinsældir borgarinnar megi að einhverju leyti rekja til þjóðarstolts Kínverja, sem vilji styðja við borgina sem hefur átt undir högg að sækja síðan faraldurinn kom upp. Kínverskir ferðamenn í Wuhan sem Wall Street Journal ræddi við, segja borgina meðal annars vera „hetjuborg" og íbúa hennar vera einstaka. Þeir álíta borgina nú vera meðal öruggustu áfangastaða í heiminum og sögðust stoltir af borginni.