Starfsfólki WuXi NextCode á Íslandi fækkar um nær helming eftir að 27 starfsmönnum var sagt upp störfum fyrr í vikunni. Hákon Guðbjartsson, framkvæmdastjóri starfstöðvar WuXi NextCode hér á landi, segir uppsagnirnar vera lið í endurskipulagningu félagsins á alþjóðlega vísu í samræmi við breytta stefnu í áherslum fyrirtækisins.

Verkefni WuXi NextCode hér á landi eru fyrst og fremst tengd þróunar hugbúnaðarlausnar og segir Hákon Guðbjartsson flesta sem misst hafi vinnuna vera sérfræðinga á því sviði en líka sé um verkefnastjóra og fólk í ýmsum sérverkefnum að ræða. „Þetta eru miklar breytingar og mikil eftirsjá af því góða fólki sem hverfur nú á braut,“ segir Hákon og bætir við að ekki séu frekari breytingar á starfsemi félagsins hér á landi í burðarliðnum.

„Eitt af markmiðum með endurskipulagningunni er að gefa starfseminni hér lengri tímaramma til þróunar á lausnum og hugbúnaði okkar þar til að hann fer að skili félaginu nægilegum tekjum. Aðalástæðan er þó breytt stefna og viðskiptamódel WuXi NextCode, sem er alþjóðlegt fyrirtæki með starfstöðvar í Bandaríkjunum, Evrópu og Kína. Meiri áhersla verður nú lögð á starfsemi félagsins í Írlandi þar sem töluverð uppbygging er fyrirhuguð,“ segir Hákon.

Fyrirtækið og starfsemin hér á landi á rætur að rekja til deCODE, en árið 2012 var NextCode stofnað í kringum þróunarverkefni á vegum deCODE. Árið 2015 festi WuXi PharmaTech kaup á NextCode fyrir 65 milljónir dollara, jafngildi 8 milljarða króna. Hannes Smárason gegndi þá stöðu framkvæmdastjóra NextCode en tveimur árum seinna tók hann við stjórnartaumum sameinaðs félagsins. Hannes lét af störfum sem forstjóri WuXi NextCode á vormánuðum 2018.