Gamestöðin mun byrja að selja Xbox One leikjatölvur öðru hvoru megin við næstu helgi. Það er ný kynslóð leikjatölva sem tölvuunnendur hafa beðið með mikilli eftirvæntingu. Þessi nýja tegund af Xbox seldist í milljón eintökum á einum sólarhring þegar hún kom út í Bandaríkjunum.

„Ég er rosalega glaður að geta boðið viðskiptavinum okkar þetta, að þetta verði komið í verslanir okkar í Kringlunni og Smáralind fyrir jól,“ segir Ágúst Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Skífunnar og Gamestöðvarinnar. Hann gerir einnig ráð fyrir því að fá „ágætis úrval“ af tölvuleikjum fyrir jólin.

Ágúst segir að jólaverslun hafi farið rólega af stað. „Eftir frekar rólegan nóvembermánuð er hún að fara af stað,“ segir Ágúst. Hann býst ekki við því að fá Playstation 4 fyrr en eftir áramót.