Forseti Alþýðulýðveldisins Kína, Xi Jinping, sagði að það væru engir sigurvegarar í viðskiptastríði, í ræðu sinni sem hann hélt á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum).

Hann hélt þar uppi merkjum hnattvæðingar og færði rök fyrir því að efnahagsleg samvinna hefði bætt lífsskilyrði milljóna í heiminum öllum. „Sama hvort að fólki líkar það eða verr, þá er alþjóðahagkerfið eins og stórt haf, sem að þú sleppur ekki auðveldlega úr,“ sagði Xi, sem er fyrsti kínverski forsetinn sem boðið er til Davos á fund Alþjóðaefnahagsráðsins. Þar eru helstu leiðtogar á sviði stjórnmála og efnahagsmála samankomnir til að ræða málin.

Einnig er haft eftir Xi að það sé mikilvægt að leggja áherslu á frjáls viðskipti og fjárfestingar. „Við verðum að að halda uppi merkjum viðskipta og fjárfestinga. Það stendur enginn uppi sem sigurvegari í viðskiptastríði.“

Þó sagði kínverski forsetinn að alþjóðavæðingin gæti verið tvíeggja sverð, og að margir fyndu fyrir sársauka þess að hann skilaði ekki tilskildum áhrifum. Þó lagði hann áherslu á að það væri ekki í boði að taka aftur upp einangrunarstefnu fyrri alda.