West Ham gæti farið á mis við allt að fimm milljónir punda í kjölfar gjaldþrots XL Leisure Group. Ferðaskrifstofan er einn aðalstyrktaraðila liðsins, og auglýsir meðal annars á keppnistreyjum félagsins. Auglýsingasamningurinn er til þriggja ára og er 7,5 milljóna punda virði. West Ham hefur aðeins fengið þriðjung þeirrar upphæðar greiddan. BBC greinir frá þessu dag.

Samningurinn var gerður í febrúar 2007. West Ham hefur aðeins fengið greitt fyrir fyrsta tímabil samningsins, það er að segja síðasta keppnistímabil. Liðið mun nú þurfa að leita sér að nýjum auglýsanda á keppnistreyjur sínar.

Í yfirlýsingu frá West Ham segir að XL sé ennþá aðalsamstarfsaðili liðsins, eða í það minnsta þar til að skiptastjóri þrotabús félagsins hefur lokið störfum.

BBC segir frá því að tengsl West Ham við ferðaskrifstofuna séu þar með ekki upptalin. Aðaleigandi liðsins, Björgólfur Guðmundsson, sé nefnilega einn þeirra sem mun nú þurfa að gangast í ábyrgð fyrir 207 milljóna evra lán sem hefur nú gjaldfallið.