Talið er að um 85.000 Bretar, sem eru nú á faraldsfæti á vegum ferðaskrifstofunnar XL Leisure Group, séu nú strandaglópar víðsvegar á Miðjarðarhafssvæðinu. Telegraph segir frá þessu í dag.

XL Leisure Group var lýst gjaldþrota í nótt eftir að mistókst að framkvæma björgun á fyrirtækinu, sem hefur átt mjög undir högg að sækja að undanförnu. Ábyrgð upp á allt að 207 milljónir evra mun nú falla á Eimskipafélagið vegna þessa.

Auk þess fjölda sem er nú fastur erlendis vegna gjaldþrotsins munu um 200.000 manns þurfa að endurskipuleggja fríið sitt. Margir fengu tilkynningu þess efnis á flugvöllum víðsvegar um Bretland í morgun að ekkert yrði að fríinu þeirra að svo stöddu – aðilinn sem seldi þeim ferðina væri gjaldþrota.

Um 2,3 milljónir manna ferðuðust á vegum ferðaskrifstofa í eigu XL Leisure Group á síðasta ári.