Stjórnendur XL Leisure Group voru varaðir við við ágöllum í bókhaldi félagsins fyrir um það bil tveimur árum. Þó heimiluðu forsvarsmenn félagsins ekki fulla skoðun á félaginu. Sunday Telegraph segir frá þessu í dag.

Fram kemur í vinnuskjölum hjá endurskoðandafyrirtækinu KPMG að félagið hafi hætt sem aðalendurskoðandi Excel Airways, sem varð síðar að XL Leisure Group. Samkvæmt KPMG mistúlkuðu og rangfærðu stjórnendur félagsins ýmis grundvallaratriði bókhaldsins, og reyndu að koma í veg fyrir að bókhald félagsins yrði tekið til gagngerrar skoðunar.

Frestuðu greiðslum til að bæta afkomu

Í uppsagnarbréfi sínu til Excel Airways sagði KPMG að reikningar fyrirtækisins „gæfu ekki rétta mynd af afkomu og stöðu mála hjá fyrirtækinu."

Fram kemur í frétt Sunday Telegraph að KPMG hafi fyrst orðið vart við hnökra á bókhaldi Excel Airways þegar rukkanir bárust frá birginum Alpha Airports, sem sá Excel Airways fyrir þjónustu um borð í flugvélum félagsins.

Stutt rannsókn var framkvæmd á Excel í kjölfarið af því að móðurfélag þess, þá Avion Group, fór fram á það. „Okkur fannst augljóst að færslur frá birginum (Alpha Airports) höfðu verið mistúlkaðar af ákveðnum stjórnendum. Að þeim sökum töldum við að grundvallaratriði væru ranglega færð í bókhaldi félagsins (Excel Airways).

KPMG hefur ekki viljað tjá sig um málið að svo stöddu. En samkvæmt heimildum Sunday Telegraph snerust athugasemdir KPMG um að Excel Airways bað Alpha Airports um að fresta rukkunum, svo afkoma ársins fyrir uppgjörsárið sem endaði í október 2005 yrði betri en ella.

Rangt verðmat hjá Avion Group?

Fáum mánuðum síðar var Avion Group, síðar Eimskipafélagið, skráð í Kauphöll Íslands. Verðmat og útboðsgengi Avion var að sjálfsögðu að einhverju leyti byggt á verðmæti Excel Airways, sem hafði stundað nokkuð framsæknar uppgjörsaðferðir.