Afkoma ríkissjóðs var neikvæð um 144 milljarða króna árið 2020 miðað við jákvæða afkomu fyrir um 42 milljarða króna árið áður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Rekstrargjöld námu 990 milljörðum króna á árinu og hækkuðu um 181 milljarð króna á milli ára. Helstu skýringar hækkunarinnar eru sagðar aukin útgjöld vegna atvinnuleysis og stuðningsaðgerða við fyrirtæki, alls 81 milljarður króna. Annar kostnaður vegna faraldursins nam 35 milljörðum króna, segir í tilkynningunni

Tekjur án fjármunatekna á árinu drógust saman um 28 milljarða króna og námu 802 milljörðum króna. Skattar, tryggingagjöld og aðrar ríkistekjur drógust saman um 29 milljarða króna en tekjur af starfsemi jukust um einn milljarð króna. Tekjur af tryggingagjöldum og sköttum voru 76 milljörðum undir upphaflegri fjárlagaáætlun.

Í tilkynningunni er bent á að kórónuveirufaraldurinn hafi valdið því að meginforsendur áætlana í efnahags- og ríkisfjármálum brustu. Þegar faraldurinn greindist fyrst á landinu hafði þó dregið úr þenslu sem hafði myndast samhliða örum vexti ferðaþjónustunnar sem skilaði sér í verri afkomu ríkissjóðs.