Starfsmenn bandaríska netfyrirtækisins Yahoo geta valið á milli iPhone 5, Samsung Galaxy S3, HTC ONE X, HTC EVO og Nokia Lumia 920 snjallsíma í stað Blackberry símanna sem þeir eru með í dag. Yahoo tilkynnti starfsmönnum sínum í gær að hætt verði að nota Blackberry síma. Ástæðan er sögð sú að viðskiptavinir noti fæstir Blackberry og að stjórnendur Yahoo vilji að starfsmenn notist við sama búnað og viðskiptavinir.

BusinessInsider greinir frá breytingunum sem þykja slæmar fyrir Research in Motion, framleiðanda Blackberry. Talið er að breytingarnar kosti nokkrar milljónir dollara fyrir Yahoo sem er með starfsmenn í 22 löndum.