Yahoo höfnuðu í gær yfirtökutilboði frá Microsoft og hluthafanum Carl Icahn. Microsoft bauð í leitarvélarhluta fyrirtækisins á meðan Icahn bauð í aðra starfsemi þess.

Yahoo sagðist hafa fengið tilboðið í hendur á föstudagskvöld og verið gefinn minna en sólarhringsfrestur til að svara. Yahoo segir Microsoft og Icahn hafa gert sér ljóst að þeir væru ekki tilbúnir að semja um grundvallaratriði samningsins, en meðal þess sem kveðið var á um í honum var að skipta út stjórn Yahoo og helstu stjórnendum.

1. ágúst verður aðalfundur Yahoo haldinn og þar mun Icahn beita sér fyrir því að skipta út stjórn Yahoo, en hann á um 5% hlut í Yahoo.