Yahoo verður sjálfgefin leitarvél á Firefox vöfrum í Bandaríkjunum frá og með desember í stað Google. Yahoo og Mozilla, sem gerir Firefox vafrann, hafa gert fimm ára samning. Samningur Google og Mozilla er að renna út, en fyrirtækin hafa verið í samstarfi í um áratug.

Framkvæmdastjóri Yahoo, Marisa Mayer, segir samninginn við Firefox mikilvægasta samstarfssamning fyrirtæksisins í fimm ár. Nú munu allir notendur Firefox í Bandaríkjunum leita á leitarvél Yahoo en ekki Google þegar þeir nota leitarglugga í vafranum sínum.

Firefox er hins vegar langt á eftir vafra Google, Google Chrome, á Bandaríkjamarkaði. Um 10% tölva, síma og spjaldtölda nota Firefox á meðan 33% nota Google Chrome, samkvæmt tölum frá StatCounter í október.

Mozilla er einnig að gera nýja leitarsamninga í Kína og Rússlandi, en í Kína verður Baidu sjálfgefin leitarvél og Yandex í Rússlandi.

Google hefur um 90% markaðshlutdeild í leit á netinu um allan heim.