Kínverskt dótturfyrirtæki netrisans Yahoo er sakað um að hafa aðstoðað kínversk stjórnvöld við að dæma blaðamann sem gagnrýndi stjórnarfarið í landinu, segir í Financial Times. Vekur þetta upp umræðu um siðferði netfyrirtækja sem aðstoða stjórnvöld til að vernda fjárfestingar sínar í viðkomandi löndum.

Málið snýst um sannanir þess efnis að Yahoo hafi hjálpað kínverskum stjórnvöldum að hafa uppi á manninum með því að rekja tölvupóst, sem hann sendi frá persónulegu Yahoo netfangi sínu, í tölvu hans. Yahoo á hagsmuna að gæta þar sem fyrirtækið fjárfesti nýlega fyrir 1 milljarð dala á kínverska markaðnum.

Maðurinn sem um ræðir var í apríl dæmdur í 10 ára fangelsi fyrir að hafa sent upplýsingar um kínverskt stjórnarfar á erlend netföng og vefsíður. Kínversk stjórnvöld segja póstinn hafa innihaldið trúnaðarupplýsingar.

Sjá nánar frétt í Viðskiptablaðinu í dag.