Bandaríska tæknifyrirtækið Yahoo! Inc. hefur nú sent út formlega tilkynningu og þar með staðfest að 500 milljón notendaaðgöngum hafi verið stolið. Um er að ræða tölvuárás sem átti sér stað árið 2014, en fyrirtækið hafði ekki getað staðfest þetta fyrr en núna.

Fyrirtækið telur að um sé að ræða erlenda árás, sem fjármögnuð sé af erlendri ríkisstjórn. Upplýsingarnar sem tölvuþrjótarnir komust yfir eru afar dýrmætar, en um er að ræða lykilorð, notendanöfn, símanúmer og fæðingardaga.

Tímasetningin er afar óheppileg, þar sem Yahoo! stendur í miðjum viðræðum við Verizon, sem hefur lýst yfir áhuga á að kaupa fyrirtækið fyrir rúmlega 4,8 milljarða Bandaríkjadali.

Fyrir tæplega tveimur mánuðum, auglýstu tölvuþrjótar notendaupplýsingar til sölu á faldavefnum. Yahoo réðst í umtalsverðar rannsóknir í kjölfarið.