Yahoo Inc hefur stefnt Facebook vegna brota á 10 einkaleyfum sem Yahoo telur sig eiga. Um er að ræða einkaleyfi sem snúa meðal annars að því hvaða aðferðir eru notaðar til að auglýsa á samfélagsmiðlinum og hvernig. Þetta kemur fram í frétt frá Reuters.

Er þetta fyrsta orrusta þessarar netrisa fyrir dómstólum en Yahoo og Facebook eru meðal stærstu og mest áberandi fyrirtækja á þessum markaði.

Samfélagsmiðlar á borð við Facebook hafa fengið mikið af ásökunum um brot á einkaleyfum samhliða auknum vinsældum. Samkvæmt Reuters eru þessar lögsóknir flestar frá aðilum sem kaupa einkaleyfi til að græða á þeim með einkaleyfasölu en ekki stór fyrirtæki á borð við Yahoo.

Stefna Yahoo er ein af mörgum sem nú er verið að láta reyna á fyrir dómstólum varðandi einkaleyfi en önnur upplýsingatæknifyrirtæki á borð við Apple, Microsoft og Motorola eru aðilar að málum þar sem reynir á einkaleyfi fyrir dómstólum.

Stefna Yahoo kemur í kjölfar tilkynningar um hlutafjárútboð hjá Facebook og er talið að verðmiðinn á félaginu geti orðið allt að 100 milljörðum Bandaríkjadala.