Fjármálastjóri Yahoo, Ken Goldman, lýsti því yfir í fjórðungsskýrslu fyrirtækisins í gær að 'Community' ásamt tveimur öðrum þáttaröðum hefði kostað fyrirtækið rúmlega 42 milljónir dala.

Yahoo afskrifaði nákvæmlega 41,699 milljónir dala vegna kostnaðarins, og Goldman sagði sérstaklega að þættirnir 'Community', 'Sin City Saints', og 'Other Space' hefðu ollið þessu tapi.

„Við höfum hugsað okkur vel og lengi um, og við komumst að þeirri niðurstöðu að við sæjum okkur ekki fært að græða á þessum þáttaröðum," sagði Goldman. „Það er ekki þar með sagt að við munum ekki halda áfram að framleiða þætti í framtíðinni. En í þessum þremur tilfellum gekk okkur heldur illa."

Yahoo sýndi sjöttu seríu 'Community' eftir Dan Harmon á Yahoo Screen, myndbandsveitu sinni, eftir að NBC hætti framleiðslu á þáttunum í lok fimmtu seríu. Yahoo hefur að öllum líkindum mistekist að koma á nægilega stórum áhorfendahópi eða ekki selt auglýsingar nógu vel til að fjárfestingin borgaði sig.