Hæstiréttur Íslands hefur snúið við dómi undirréttar og dæmt þýðanda Friends þáttanna vinsælu eina milljón króna í skaða- og miskabætur. Auk þess voru honum dæmdar 800.000 krónur í málskostnað. Jón Steinar Gunnlaugsson skilaði séráliti og vildi staðfesta hinn áfrýjaða dóm.

Þýðandinn, Ólafur Jónsson, taldi að brotinn hefði verið höfundarréttur hans þegar nafngreindir bandarískir sjónvarpsþættir, sem Ólafur hafði þýtt á íslensku, voru gefnir út á DVD-diskum hérlendis án heimildar hans. Áður hafði verið samkomulag um að gefa þættina út á myndbandsspólum. Höfðaði hann mál á hendur Árna Samúelssyni, eiganda Sam-félagið ehf., til greiðslu bóta af þessum sökum, en félag í eigu Árna hafði áður gefið umrædda þætti út á VHS-myndböndum hérlendis með þýðingum Ólafs samkvæmt munnlegum samningi við hann.

Talið var að hinn munnlegi samningur hefði ekki náð til nýtingar á þýðingunum við útgáfu DVD-diskanna, eins og Árni hélt fram, og að honum hafi mátt vera það kunnugt. Hæstiréttur taldi að ekki hefði annað verið ráðið en að félag Árna hefði með einhverjum hætti komið að útgáfu umræddra diska og jafnframt var viðurkennt að það hefði verið dreifingaraðili hérlendis. Bakaði aðkoma félagsins Árna fébótaábyrgð á því broti gegn höfundarrétti sem hér um ræddi, sbr. 1. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972, en Árni hafði lýst því yfir að hann gerði ekki athugasemd við að Ólafur beindi kröfum að sér persónulega í stað félagsins. Var Árni dæmdur til að greiða Ólafi skaða- og miskabætur sem metnar voru að álitum í heild 1.000.000 krónur.

"Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaga skal dæma höfundi miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti hans með ólögmætri háttsemi. Með því að rétti áfrýjanda var samkvæmt framangreindu raskað á ólögmætan hátt ber að dæma honum miskabætur. Bæði fjártjón áfrýjanda og miska verður að meta nokkuð að álitum og er rétt eins og hér háttar til að ákveða bæturnar í einu lagi. Með framangreind sjónarmið í huga þykir rétt að stefndi greiði áfrýjanda bætur fyrir brot á höfundarrétti hans, sem teljast hæfilega ákveðnar í heild 1.000.000 krónur," segir í niðurstöðu Hæstaréttar.

Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson mynduðu meirihluta dómsins.