Vinningstillaga á stækkun Gamla Garðs var kynnt í vikunni og verðlaun veitt, en í byrjun árs efndi Félagsstofnun stúdenta til samkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands um skipulags- og grunnhönnun á nýjum stúdentagarði á lóðinni. Alls bárust 13 tillögur í keppnina en vinningstillöguna áttu Ydda arkitektar og DLD - Dagný Land Design. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagsstofnun stúdenta.

Ydda var stofnuð árið 2013 af Hildi Ýri Ottósdóttur og Hjördísi Sóleyju Sigurðardóttur sem báðar luku BA prófi í arkitektúr frá LHÍ. Að því loknu lauk Hildur Ýr meistaraprófi frá EPFL í Lausanne, Sviss en Hjördís Sóley meistaraprófi frá TU-Delft í Hollandi. DLD - Dagný Land Design var stofnað árið 2011 af Dagnýju Bjarnadóttur en hún lauk meistaraprófi í landslagsarkitektúr frá Kaupmannahafnarháskóla.

„Í umsögn dómnefndar um tillöguna segir m.a. að hönnun húsanna falli vel að hugmyndum FS um samfélag stúdenta, en í samkeppnislýsingu kom m.a. fram að áherslur í byggingu og nýtingu skyldi vera í takt við þá stefnu FS að auka lífsgæði stúdenta. Fyrirkomulag lóðar er skemmtilegt og býður upp á opið samfélag íbúa og annarra gesta háskólasvæðisins. Íbúar Gamla Garðs fá með tillögunni útisvæði til afnota sem er vel þegið. Þá fær hann skjól frá nýbyggingu við Hringbraut en skapar skemmtilega opnun inn á háskólasvæðið í átt að Skeifu og Sæmundargötu. Vonast er til að framkvæmdir við bygginguna hefjist í lok árs og að hún verði tekin í notkun vorið 2019,“ segir í tilkynningu frá Félagsstofnun stúdenta.