Formaður stjórnar bandaríska seðlabankans sagði í dag að bankinn ætti að fara sér hægt í að hækka stýrivexti frekar.

Hún sagði að bandaríska hagkerfinu stafaði ekki mikil hætta af þróun mála á alþjóðavísu, en rétt væri þó að hafa vaðið fyrir neðan sig. Vísaði hún þar meðal annars til óróa á olíumarkaði og hins vegar til hægari hagvaxtar í Kína.

Hún sagði að búast mætti við því að seðlabankinn myndi hækka vexti hægar en gert var ráð fyrir í desember, m.a. vegna þróunar mála í öðrum ríkjum.

Í frétt BBC segir að tónninn í ræðu Yellen hafi verið svipaður og í yfirlýsingu seðlabankans þegar ákveðið var að halda stýrivöxtum hans óbreyttum.