Fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Janet Yellen, segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hvorki skilja hagstjórn né tilgang seðlabankans, og áherslu hans á viðskiptajöfnuð við Kína misráðna. BBC segir frá .

Yellen lét ummælin falla í viðtali í útvarpsþættinum Marketplace fyrr í vikunni, en þar sagði hún einnig að árásir Trump á Jerome Powell, sitjandi seðlabankastjóra – sem Trump skipaði sjálfur í embætti – væru til þess fallnar að grafa undan trausti almennings á bankanum.

Í viðtalinu var Yellen spurð hvort hún teldi forsetann skilja undirstöðuatriði hagstjórnar. Hún svaraði því neitandi, og bætti við að hann virtist ekki skilja tvíþætt hlutverk seðlabankans: að halda verðbólgu og atvinnuleysi í skefjum. „Ég efast um að hann viti einu sinni að markmið seðlabankans eru sem hæst atvinnustig og verðstöðugleiki, en það eru þau markmið sem þingið hefur gefið honum,“ er haft eftir Yellen.

Jerome Powell hafði ekkert um ummæli Yellen að segja þegar hann var spurður út í þau fyrir þingnefnd.