Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Janet Yellen, sagði í dag að stýrivextir í Bandaríkjunum yrðu hækkaðir bráðlega. Talið er að ákvörðunin verði tekin fyrir jólin. Yellen tók fram að rökin fyrir vaxtahækkun væru í sífelldu að verða meira sannfærandi. Frá þessu er greint á CNN Money .

Janet Yellen hefur þurft að sæta mikilli gagnrýni af höndum Donald Trump nýkjörins forseta Bandaríkjanna. Hann hefur meðal annars sagt að Yellen ætti að „skammast sín,“ og að hún væri að skapa „gervihagkerfi,“ með því að halda stýrivöxtum lágum.

Að mati hagfræðinga gæti þó nú orðið breyting á. Trump hyggst eyða talsverðu fé úr ríkissjóði og það gæti neytt Seðlabankann vestanhafs til þess að hækka vexti. Næsti fundur seðlabankans verður 13. til 14. desember á þessu ári.

Atvinnustig hefur batnað nokkuð á þessu ári í Bandaríkjunum og laun hafa hækkað. Einnig hefur verið nokkur hagvöxtur en hann var 3% á þriðja ársfjórðungi, en einungis 1% á fyrri helmingi ársins. Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá þá telja fjárfestar 92% líkur á því að stýrivextir verði hækkaðir á næsta fundi seðlabankans.

Einnig tók Yellen fram að hún hyggist sitja í stóli seðlabankastjóra til ársins 2018, eða þar til tímabili hennar líkur.