Á mörkuðum í Asíu í nótt styrktist japanska yenið gagnvart helstu gjaldmiðlum. Kemur það í kjölfar þess að ljóst varð að væntingar um að efnahagsaðgerðir til að örva hagkerfið voru ofmetnar.

Þó að allt stefni í að japanska ríkið ætli sér að beina 6.000 milljörðum yena ( 6 billjón yen) inní hagkerfið, sem er tvöfallt á við það sem áður var talið, er nú orðið ljóst að þessari upphæð verður eytt yfir nokkur ár.

Þýðir það að upphafleg áhrif þess verður minni en væntingar voru um. Japan hefur lengi barist við verðhjöðnun og kemur það sér illa fyrir fyrirtækin í landinu að gjaldmiðillinn styrkist ef óróleiki er á mörkuðum, enda álitinn örugg höfn.

Nikkei vísitalan lækkaði um 1,43% í kjölfarið en almennt virðist sem helstu vísitölur í Asíu og nágrenni hafi hækkað í nótt.

  • Þannig hækkaði Kospi vísitalan í Suður Kóreu um 0,75%.
  • Einnig hækkaði Taiwan Weighted vísitalan um 0,37%.
  • Hang Seng vísitalan í Hong Kong hækkaði um 0,48%.
  • Dow Jones vísitalan í Shanghai hækkaði um 1,18%.
  • S&P/ASX 200 vísitalan í Ástralíu hækkaði svo um rétt 0,07%.
  • Dow Jones vísitalan í Nýja Sjálandi lækkaði hins vegar um 0,08%