Sýn hefur undirritað viljayfirlýsingar og skipst á trúnaðarupplýsingum við þrjá mismunandi aðila vegna sölu á burðarneti í eigu félagsins. Þetta kom fram í máli Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar, á fjárfestafundi félagsins á föstudaginn . Gangi sala innviðanna eftir kemur hún til viðbótar við 7,1 milljarðs króna sölu á svokölluðum óvirkum fjarskiptainnviðum sem þegar hefur verið skrifað undir sölu á við Digital Colony líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá. Þau kaup bíða samþykki Samkeppniseftirlitsins. Sýn mun leigja búnaðinn aftur af seljendum.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar um sé að ræða þrjá innlenda og erlenda aðila. Viðræðurnar snúist um sölu svokallaða fastlínuinnviði á borð við ljósleiðara sem eru á um 800 stöðum víða um land.

Heiðar sagði á uppgjörsfundi félagsins á föstudaginn að salan frekari innviða geti hæglega numið álíka fjárhæð og fyrri sala. Gangi áform félagsins eftir mun það því selji innviði fyrir á annan tug milljarða króna

Sjá einnig: Sýn og Nova að selja bandarískum risa

Heiðar lét hafa eftir sér við uppgjörstilkynningu Sýnar á miðvikudag að verið væri að innleysa 6,5 milljarða söluhagnað með upphaflegu innviðasölunni. „Við stefnum á meiri sölu innviða á árinu en nú þegar er ljóst að skuldirnar sem við tókum á okkur við kaup á eignum 365 verða greiddar upp á þessu ári auk þess sem mikið svigrúm myndast til endurkaupa hlutabréfa. Þessar aðgerðir koma í framhaldi af stefnumótun félagsins um að verða markaðs- og þjónustufyrirtæki og einfalda reksturinn,“ sagði Heiðar.