Yfir 10 þúsund manns hafa nú skrifað undir áskorun þar sem skorað er á Alþingi að hafna frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave reikninga Landsbankans. Auk þess er heitið á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að synja frumvarpinu staðfestingar, verði það samþykkt á Alþingi.

Undirskrifasöfnunin fer fram á vefnum kjosum.is en hún fer nú þegar hraðar af stað en undirskriftasöfnun InDefence- hópsins í síðla árs 2009. Síðan var opnuð á föstudagskvöld og nú þegar hafa sem fyrr segir 10 þúsund manns skrifað undir.

Morgunblaðið greinir frá því á vef sínum í kvöld að undirskriftasöfnun InDefence hófst að kvöldi 25. nóvember 2009 og tveimur sólarhringum síðar höfðu um 8.500 undirskriftir safnast. InDefence afhenti forseta Íslands undirskriftir rúmlega 56 þúsund manns þann 2. janúar 2010 og í kjölfarið synjaði forsetinn lögunum.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu í byrjun mars í fyrra hafnaði yfirgnæfandi meirihluti síðan sömu lögum.

Hópurinn sem stendur að undirskriftarsöfnuninni nú mun í fyrramálið kynna sig á blaðamannafundi samkvæmt því sem fram kemur á síðunni.