Tölvuleikjaiðnaður á Íslandi hefur velt yfir 100 milljörðum króna á síðustu 10 árum en í dag eru 17 fyrirtæki starfandi í greininni þar sem CCP er þar langstærst. Þetta er meðal þess kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir Samtök leikjaframleiðenda og kom út á fimmtudag en skýrslan var unnin af Northstack. Í skýrslunni er að finna yfirgripsmikla úttekt á stöðu og þróun tölvuleikjaiðnaðarins á síðustu 10 árum.

Á árunum 2009 til 2016 tvöfaldaðist velta í greininni í um 14,5 milljarða á ári. Árið 2017 störfuðu yfir 400 manns við tölvuleikjagerð en eftir að Quiz Up og Novomatic hættu starfsemi hefur starfsmannafjöldinn farið niður í um 345 á þessu ári og veltan í um 10 milljarða. Frá árinu 2009 hafa íslensk leikjafyrirtæki gefið út 83 leiki sem þýðir að nýr leikur hefur komið út á um eins og hálfsmánaða fresti. Þá skilar nær öll velta geirans sér í gjaldeyristekjum en um 95% af tekjum fyrirtækjanna eru í erlendri mynt.

Að sögn Vignis Guðmundssonar, formanns Samtaka leikjaframleiðenda (IGI),   og þróunarstjóra hjá CCP, er skýrslunni ætlað að bæta upplýsingagjöf um geirann bæði gagnvart erlendum fjölmiðlum, fjárfestum og innlendum stjórnvöldum en einnig til þess að skerpa á stefnumótun samtakanna.

„Áhuginn á þessum iðnaði hefur aukist gífurlega bæði hér heima og alþjóðlega síðasta áratuginn. Við höfum haft fyrirtæki eins og CCP og QuizUp, auk fleiri sem hafa sett mark sitt á alþjóðlegu leikjaiðnaðarsenuna. Við höfum hins vegar fundið fyrir því að okkur vantaði sterkari útgáfu og úttekt á okkar iðnaði til þess að deila með alþjóðlegum fjölmiðlum, fjárfestum og tengiliðum.

Þá fannst okkur við komin á þann stað að við gætum ekki farið að skerpa á okkar stefnumótun eða farið að segja skilvirkar frá okkar iðnaði nema með því að leggjast í þessa vinnu og fá greiningaraðila eins og Northstack til að leiða hana.

Við hlökkum til að taka innihald skýrslunnar inn í okkar stefnumótun í byrjun næsta árs þar sem við munum setja okkur ný markmið og skerpa á okkar helstu áherslumálum,“ segir Vignir

Staðfesting á grósku í greininni

Þrátt fyrir að CCP sé langstærsta tölvuleikjafyrirtæki landsins þá starfa um 35% í þeim 16 öðrum fyrirtækjum sem eru starfandi í greininni hér á landi. Mörg fyrirtækjanna eru komin með sterka alþjóðlega fjármögnun en að mati Vignis er nú kominn tími þar sem iðnaðurinn geti farið upp á næsta þrep.

„Skýrslan er ákveðin staðfesting á gróskunni sem hefur verið í greininni síðustu ár. Hún sýnir okkur að við erum með öflug fyriræki og mörg járn í eldinum. Þar af eru fjölmörg þeirra komin með styrki eða fjárfestingu og mörg hver með mjög sterka alþjóðlega fjármögnun frá aðilum á borð við Tencent og Index Ventures. Þetta sýnir okkur að við erum að koma að tímabili núna þar sem við gætum farið að sjá iðnaðinn fara upp á næsta þrep. Á sama tíma þurfum við að styðja við þessi fyrirtæki og auka líkur á árangri með því að bæta rekstrarumhverfi þeirra, auðvelda þeim að sækja öflugan mannauð og fjölga leiðum þar sem fyrirtækin geta sótt sér fjármagn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .