Störf vegna skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarleiðréttingarinnar eru ekki einu störfin sem ríkisskattstjóri hefur auglýst að undanförnu. Í fyrri hluta mars var auglýst eftir lögfræðingi. Eftirspurnin eftir stöðunni var mjög mikil. „Við fengum 105 umsóknir,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. Starfsmenn ríkisskattstjóra eru um þessar mundir 250 á níu starfsstöðvum, þar af um 150 í aðalstöðvum í Reykjavík.

Þetta bætist við þær 370 umsóknir um störf hjá ríkisskattstjóra við framkvæmd leiðréttinga á höfuðstól fasteignaveðlána og ráðstöfun séreignarsparnaðar til lækkunar á höfuðstól fasteignaveðlána. Skúli Eggert segir að fólkið sem sótti um sé með ýmiskonar háskólamenntun að baki.

„Þetta er auglýst með fyrirvara um ákvörðun Alþingis þannig að það verða engar ráðningar fyrr en það liggur fyrir hvort frumvarpið verður afgreitt eða ekki,“ segir Skúli Eggert. Ekki var í auglýsingum ríkisskattstjóra eftir hversu mörgum starfsmönnum er leitað. „Við ætlum að láta það ráðast af því hvernig afgreiðsla þingsins verður,“ segir hann en bætir við að þetta geti hugsanlega orðið í kringum 12 manns. Einnig muni einhverjir af núverandi starfsmönnum hjá embætti ríkisskattstjóra færast til í starfi innanhúss til að sinna skuldaleiðréttingunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .