Yfir 100 þúsund ferðamenn hafa komið í gestastofuna á Þorvaldseyri síðustu tvö ár til þess að horfa á heimildarmynd um gosið í Eyjafjallajökli. Eftir sýningu myndarinnar geta gestir svo keypt minjagripi sem tengjast gosinu. Gestastofan sem áður var vinnuskúr sem tilheyrði bænum að Þorvaldseyri var sett upp eftir gosið og safnið var opnað árið 2011, um það bil ári eftir að Eyjafjallajökull gaus.

„Það er búið að ganga vonum framar og það er búið að vera mikil aukning síðan í fyrrasumar,“  segir Inga Júlía Ólafsdóttir bóndadóttir sem starfar á Gestastofunni.  „Við teljum kannski að hluti ástæðu þessarar aukningar sé að það er búið að vera svo rosalega leiðinlegt veður. Þannig að fólk vilji finna sér eitthvað að gera inni í stað þess að vera úti,“ segir Inga Júlía en bætir því við að aukningin skýrist líka með auknum ferðamannafjölda á landinu.

Gosið í Eyjafjallajökli er mörgum ferðamönnum í fersku minni enda lömuðust flugsamgöngur um allan heim fyrst þegar gosið hófst. Inga Júlía segir að mikið af stórum hópum komi í gestastofuna. „Það er mörgum sem finnst það ómissandi að stoppa hér við og skoða myndina,“ segir hún. Sömu ferðaþjónustufyrirtækin komi aftur og aftur og ný bætist við.

Inga Júlía segir að á háannatímanum komi að meðaltali 400 manns á dag í Gestastofuna. „Síðustu daga hefur það farið alveg upp í sjö hundruð manns,“ segir hún en bendir á að safnið geti vart tekið á móti fleiri gestum. Inga Júlía telur að heimildarmyndin um gosið sé sýnd um það bil 25 sinnum á dag, en hún er sýnd á átta mismunandi tungumálum.

Eftir sýningu getur fólk svo keypt minjagripi. Inga Júlía segir að askan úr gosinu og repjuolían séu vinsælust. „Fólki finnst merkilegt að þetta sé eini staðurinn á landinu þar sem búin er til matarolía.