Fyrsta íslenska tölvugerða teiknimyndin um Litlu lirfuna ljótu hefur nú náð þeim áfanga að seljast í yfir 100.000 eintökum frá því hún kom út fyrir tveimur árum hér á Íslandi. Lang stærstur hluti þessarar sölu er kominn til af útgáfu hennar á gagnvirku formi í Frakklandi og á Norðurlöndunum. Eftir því sem framleiðendur Litlu lirfunnar komast næst er þetta að öllum líkindum mesta sala íslenskrar myndar á DVD nokkru sinni.

Í tengslum við þessa útgáfu og áframhaldandi þróun verkefnisins hefur Litla lirfan nú hlotið nafnið Kata ? litla lirfan ljóta á íslensku. Á hinum norrænu tungumálunum heitir hún Katja og í Englandi og Frakklandi Katie. Myndin hefur verið talsett á 7 tungumál og er væntanleg í Spænskri DVD-Kids útgáfu á næsta ári segir í tilkynningu frá CAOZ.

Litla lirfan ljóta hlaut tvenn EDDU verðlaun árið 2002 sem Besta stuttmyndin og Gunnar Karlsson fyrir Bestu listrænu stjórnun. Auk þess var Gunnar tilnefndur sem besti leikstjórinn það árið. Myndin var sýnd á yfir 30 kvikmyndahátíðum víðsvegar um heiminn árin 2002 og 2003 og var tilnefnd eða vann til verðlauna á 18 þeirra.

Myndin var seld sem svarar innlendri gullsölu á Íslandi fyrir jólin 2002. Af erlendum sjónvarpstöðvum sem sýnt hafa myndina má nefna Disney í Frakklandi og TV2 í Danmörku.

Litla lirfan ljóta er gerð eftir sögu Friðriks Erlingssonar og er framleidd og teiknuð hjá CAOZ ? hönnun og hreyfimyndagerð. Yfir 40 aðilar komu að gerð myndarinnar á einn eða annan hátt og var framleiðslukostnaður hennar um 36 milljónir króna.