Fyrsta áfanga af þremur í Frumkvöðlakeppni Innovit 2008 fyrir íslenska háskólanema og nýútskrifaða lauk nú á miðnætti, 30. janúar. Alls bárust yfir eitt hundrað viðskiptahugmyndir í keppnina og fór þátttaka fram úr björtustu vonum aðstandenda. Þátttakendur að baki viðskiptahugmyndunum eru á þriðja hundrað og bárust viðskiptahugmyndir úr öllum háskólum landsins og að auki frá íslendingum í nokkrum erlendum háskólum. Keppnin er haldin að fyrirmynd sambærilegrar keppni við MIT háskóla í Bandaríkjunum, MIT $100K Entrepreneurship Competition.

Í fréttatilkynningu vegna keppninnar segir að í þessum fyrsta hluta keppninnar verða 10 framsæknustu viðskiptahugmyndirnar verðlaunaðar með peningastyrk að upphæð 20.000,- krónur. Í síðari hluta keppninnar er svo keppt um bestu viðskiptaáætlunina og hlýtur verðlaunahugmyndin Gulleggið 2008 ásamt 1.500.000,- krónum í peningaverðlaun og ráðgjöf hjá sérfræðingum Innovit að verðmæti 500.000 ,- krónur.

Í fyrsta áfanga keppninnar þurftu keppendur að skrá sig til leiks og skila inn tveggja blaðsíðna yfirlitságripi um viðskiptahugmyndina sína. Í öðrum áfanga keppninnar þurfa keppendur að skila inn fullmótaðri viðskiptaáætlun, fyrir 25. Mars næstkomandi. Einungis 10 viðskiptahugmyndir komast í þriðja og úrslitaáfanga keppninnar, þar sem keppendur þurfa að kynna viðskiptahugmynd sína fyrir dómnefnd sem samanstendur af fjárfestum og fagaðilum. Samhliða keppninni stendur Innovit fyrir námskeiðinu “Viðskiptatækifæri, fólk og leiðtogar” þar sem farið verður í stofnun og rekstur sprotafyrirtækja, leiðtogaþjálfun og gerð viðskiptaáætlana.

Sýnir þessi mikli áhugi á keppninni þann eldmóð og frumkvöðlaanda sem býr í íslenskum háskólanemum, en allir háskólanemar sem og þeir sem útskrifast hafa úr íslenskum háskólum frá 1. Janúar 2003 höfðu þátttökurétt í keppninni. Er það von Innovit að keppnin muni bæði veita þátttakendum marktæka þjálfun og reynslu áður en farið er út í stofnun fyrirtækis og þar með auka gæði viðskiptahugmynda og árangur sprotafyrirtækja á næstu árum. Jafnframt að keppnin verði hvatning fyrir háskólanema og íslenska frumkvöðla til að hagnýta í auknum mæli rannsóknir sínar á arðbæran hátt, en skv. alþjóðlegum rannsóknum (Global Entrepreneurship Monitor) er hlutfall háskólamenntaðra frumkvöðla á Íslandi sláandi lágt, eða einungis um 30%. Sama hlutfall eru um tvöfalt hærra á Norðurlöndunum, í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Í tilkynningunni er haft eftir Andra Heiðari Kristinssyni, framkvæmdastjóra Innovit : “Þátttaka í keppninni, sem nú er haldin í fyrsta sinn á Íslandi, fór fram úr okkar björtustu vonum. Það er ljóst út frá þessum viðbrögðum að mikil sköpun viðskiptatækifæra á sér stað innan íslenskra háskóla og frumkvöðlagenið í okkur Íslendingum á sér sterkar rætur. Það verður virkilega gaman að fylgjast með þróun viðskiptahugmyndanna í keppninni á næstu mánuðum, og ekki síður hvort eitthvert þeirra fyrirtækja sem til verða í kjölfar keppninnar muni ganga upp til framtíðar og ná fótfestu á alþjóðlegum mörkuðum á næstu 5-10 árum”.