Hagnaður Icelandair Group á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, eftir skatta og fjármagnsliði, nam 1,4 milljarði króna, samanborið við 9,6 milljarða króna tap á sama tíma árið áður. Heildarvelta félagsins á tímabilinu var 18,8 milljarðar króna og jókst um 3% frá fyrra ári.

Þannig nam hagnaður félagsins á árinu 2010 tæpum 4,6 milljörðum króna, samanborið við tap upp á 10,7 milljarða árið áður.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Icelandair Group.

Hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði á fjórða ársfjórðungi nam 1,1 milljarði króna, samanborið við tap upp á 0,2 milljarða frá sama tíma árið 2009. Afskriftir félagsins á tímabilinu námu 2,1 milljarði króna sem er lækkun um 0,7 milljarða frá fyrra ári. Þá var fjármagnskostnaður 0,6 milljarðar króna samanborið við 2,9 milljarð króna árið áður.

Tap félagsins eftir fjármagnsliði er um 1 milljarð króna á fjórða ársfjórðungi, samanborið við tap upp á 2,9 milljarða árið áður.

Þá nam söluhagnaður eigna í tengslum við endurskipulagningu efnahagsreiknings félagsins 4,2 milljörðum króna á tímabilinu.

Afskriftir og fjármagnsliðir tæpir 10 milljarðar

Sem fyrr segir nam hagnaður félagsins á árinu öllu, eftir skatta og fjármagnsliði, um 4,6 milljörðum króna, samanborið við tap upp á 10,7 milljarða árið 2009. Viðsnúningurinn á milli ára er því um 15,3 milljarðar króna.  Heildarvelta félagsins á árinu jókst um 10% á milli ára og var um 88 milljarðar króna.

Hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði nam tæpum 12,6 milljörðum króna, samanborið við rúma 8 milljarða frá árinu áður.

Fjármagnskostnaður var 3,5 milljarðar króna samanborið við 6 milljarða króna árið áður og afskriftir félagsins á árinu voru um 6,3 milljarðar króna, sem er lækkun um 0,3 milljarða milli ára.

Handbært fé og skammtímaverðbréf í lok ársins 2010 var 13 milljarðar króna, en var 1,9 milljarðar árið áður. Þá námu heildareignir félagsins 84,2 milljörðum króna í lok árs og eiginfjárhlutfall var 33,7 % í lok árs 2010, en voru 89,1 milljarðar og 16,4% í lok árs 2009.