Heildarviðskipti með hlutabréf í september námu 46,8 milljörðum króna eða 2,2 milljörðum á dag. Þá námu heildarviðskipti með skuldabréf 107,4 milljörðum í síðasta mánuði, sem samsvarar 5,1 milljarðs veltu á dag. Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti Kauphallarinnar fyrir september. Alls námu heildarviðskipti með hlutabréf og skuldabréf því 154,2 milljörðum króna í september.

Velta á hlutabréfamarkaði jókst um 7% í september

Aukningin í veltu á hlutabréfamarkaði í september var 7% frá því í ágúst. Þó var 12% lækkun í veltu milli ára. Mest voru viðskipti með bréf Marel (10,3 milljarðar), Icelandair Group (4,7 milljarðar), Reita (4,1 milljarður), HB Granda (3,9 milljarðar) og Símans (3,5 milljarðar). Úrvalsvísitalan (OMXI8) lækkaði um 1,3% milli mánaða og stendur nú í 1.653 stigum.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Landsbankinn  með mestu hlutdeildina í viðskiptum, 22,8% (20,8% á árinu), Arion banki með 20,8% (24,9% á árinu), og Fossar markaðir með 15,3% (13,7% á árinu).

Í lok september voru hlutabréf 21 félags skráð á aðallista Kauphallarinnar og Nasdaq First North á Íslandi. Þar af var eitt félag nýskráð á First North á Íslandi í mánuðinum, Klappir Grænar Lausnir hf. Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga nam 1.010 milljörðum króna í september samanborið við 1.032 milljarða í ágúst.

26% lækkun milli ára í viðskipti með skuldabréf

Velta á skuldabréfamarkaði jókst um 0,2% í september frá því í ágúst, en lækkaði um 26% milli ára. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 79,4 milljörðum, viðskipti með bankabréf námu 22,0 milljörðum, og viðskipti með íbúðabréf námu 1,9 milljörðum. Mest voru viðskipti með RIKB 28 1115 (13,9 milljarðar), RIKB 25 0612 (13,9 milljarðar), RIKB 31 0124 (13,7 milljarðar), RIKB 22 1026 (13,3 milljarðar) og RIKB 20 0205 (11,3 milljarðar). Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) lækkaði um 0,5% í september og stendur í 1.322 stigum. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) lækkaði um 0,6% og sú verðtryggða (NOMXIREAL) lækkaði um 0,6%.

Á skuldabréfamarkaði var Landsbankinn með mestu hlutdeildina 20,2% (17,4% á árinu), Íslandsbanki með 16,8% (17,4% á árinu), og Kvika banki með 16,4% (15,2% á árinu).