Í júlí var hlutfall starfandi á íslenskum vinnumarkaði 78% eftir að hafa lækkað um 2,8 prósentustig frá því í júlí 2019, en á sama tímabili hafði starfandi fólki fækkað um 5.900 en atvinnulausum fjölgað um 5.100 að því er Hagsjá Landsbankans tekur saman.

Í júlí voru 10.900 atvinnulausir í heildina samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar, sem samsvarar 5,1% atvinnuleysi, en samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru 17.100 manns skráðir atvinnulausir að fullu, sem samsvarar 7,9% atvinnuleysi. Að viðbættu atvinnuleysi í hlutabótakerfinu var það þá komið í 8,8% í júlí.

Ekki minni atvinnuþátttaka síðan 2003

Hlutfall starfandi mældist 72,8% á öðrum ársfjórðungi þessa árs, miðað við árstíðarleiðréttar tölur, og hafði þá ekki verið lægra síðan mælingar hófust árið 2003. Þar með varð hlutfallið einu prósentustigi lægra en það varð lægst eftir fjármálakreppuna.

Ef horft er til mánaða fór atvinnuþátttakan lægst í apríl síðastliðnum þegar hún fór í 75,8% og hafði hún þá sömuleiðis ekki verið lægri á einum mánuði síðan 2003. Atvinnuþátttakan jókst hins vegar um rúmlega 5 prósentustig í maí og fór þá upp í 80,9%, sem samt var rúmu prósentustigi lægri en í maí 2019.

Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal fór atvinnuþátttaka hæst um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í tæp 84%. Samsvarandi tala nú er 79,8% og hefur farið stöðugt lækkandi frá 2017.