Að mati greiningardeildar Arion banka er þörf á yfir 20 milljörðum króna til að mæta fjárfestingum í vegakerfinu. Greint var frá því á dögunum að ný ríkisstjórn hefði skorið niður samgönguáætlun sem samþykkt var í október síðastliðnum um tíu milljarða króna og hafa fréttir þess efnis vakið mikið umtal.

Að sögn Konráðs S. Guðjónssonar, sérfræðings hjá greiningardeild Arion banka, voru fjárfestingar í vegum og brúm helmingi minni árið 2015 heldur en árið 1995. Hefur fjárfestingin alls ekki verið nógu mikil og þá sérstaklega ekki þegar tekið er tillit til gríðarlegrar fjölgunar bíla á vegum landsins.

„Hún hefur ekki verið nógu mikil. Við áætlum að frá ársbyrjun 2016 hafi uppsafnaða þörfin þegar verið 20 milljarðar og hún virðist hafa aukist enn frekar,“ sagði Konráð í hádegisfréttum á RÚV. Hann útilokar ekki að æskilegt gæti verið að grípa til sérstakra fjáröflunaraðgerða á borð við vegatolla til að hraða uppbyggingunni.