Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar segir kaup fyrirtækisins á færeyska fyrirtækinu P/f Von í Færeyjum styrkja fyrirtækið mjög enda starfar það nú á 35 stöðum í 12 löndum. „Vonin hefur verið starfandi á mörkuðum sem Hampiðjan hefur ekki verið sterk fyrir, eins og til dæmis á Grænlandi, Færeyjum og Noregi svo fyrirtækin passa landfræðilega vel saman,“ segir Hjörtur.

„Von er keðja netaverkstæða með eigin framleiðslustarfsemi í Litháen þar sem þeir framleiða aðallega fyrir fiskeldiskvíar Hampiðjan er svipuð, við erum með netaverkstæði út um allan heim, en síðan erum við með grunnframleiðslu á efnum í Litháen. Meirihlutinn af því sem við seljum er til fyrirtækja Hampiðjunnar á Íslandi og út um allan heim og síðan bætist Von þar við.“

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á sínum tíma tvöfaldaðist velta Hampiðjunnar við kaupin á Von, en síðasta ár var fyrsta sameiginlega rekstrarár félaganna. Í lok síðasta mánaðar birti félagið svo árshlutareikning sem sýndi hagnað fyrir um 1,7 milljarð íslenskra króna og töluverða aukningu á milli ára.

Í morgun birti Viðskiptablaðið svo fréttir um sölu Hampiðjunnar á 3,92% hlut sínum í HB Granda fyrir tæplega 2,3 milljarða króna, en þar með lýkur yfir 30 ára sögu eignarhalds Hampiðjunnar í félaginu.

Rætur í kaupum á Bæjarútgerðinni

„Við sömdum um kaupin á P/f Von í fyrra og kaupin voru gerð á fyrstu mánuðum ársins. Hugmyndin var alltaf sú að fjármagna kaupin með sölu á bréfum okkar í HB Granda. Í framhaldinu efndum við til útboðs í byrjun maí, seldum þá hluta af bréfunum en það var ekki næg eftirspurn eftir bréfunum á þeim tíma. Síðan hefur bréfunum bara verið haldið til sölu,“ segir Hjörtur, en eignarhluturinn í félaginu á rætur sínar að rekja til þátttöku Hampiðjunnar í stofnun Granda við sem varð til við sameiningu Ísbjarnarins og Búr og síðan kaupa þeirra á Bæjarútgerð Reykjavíkur árið 1985.

„Við vorum með tæplega þriðjungseignarhlut til að byrja með þegar Hampiðjan tók þátt í að kaupa Granda sem þá hét og Bæjarútgerðina. Síðan hafa verið breytingar á hlutafé HB Granda, sameiningar og annað slíkt, en við höfum aldrei bætt í, heldur bara haldið upprunalega hlutnum sem hefur hlutfallslega minnkað með árunum.“

Þegar Grandi sameinaðist Harald Böðvarsson hf. á Akranesi árið 2004 var svo HB nafninu bætt við. Hjörtur segir þetta vera fjórðu sölu Hampiðjunnar á bréfum í HB Granda á rúmu ári. Eignarhlutur félagsins í HB Granda stóð í 9,79% í lok árs 2015 en svo seldi félagið 28,4 milljónir hluta 3. maí á síðasta ári, 10,3 milljónir 20. júní sama ár og svo hafa verið tvær sölur á þessu ári. „Síðan seldum við 50 milljónir hluta í vor og svo 70 milljónir núna.“

Staðbundnir og sérhæfðir markaðir

Spurður hvort standi til að sameina Hampiðjuna og Von undir einu merki segir Hjörtur að svo sé ekki. „Hver markaður í veiðarfærum er mjög sérstakur, það er svo margt sem er frábrugðið og þeir eru mjög staðbundnir,“ segir Hjörtur.

„Það eru mismunandi gerðir af skipum, mismunandi fisktegundur, verið er að veiða á mismunandi botni og svo þarf að þróa sérstaklega veiðarfærin fyrir mismunandi flota. Það er ekki hægt að bjóða eitt troll sem hentar öllum, heldur verða þau að vera aðlöguð að hverju svæði fyrir sig og hverju skipi fyrir sig.“

Frá Ísafirði til Nýja Sjálands

Hjörtur segir fyrirtækið sem er stýrt frá Íslandi teygja sig frá ysta oddi Alaska til Nýja Sjálands.

„Á heimsvísu erum við nú með 24 fyrirtæki í samstæðunni, við erum á 35 stöðum í heiminum og í 12 löndum. Við erum í Bandaríkjunum, en þar erum við í Seattle með útibú í Dutch harbour í Alaska og með netaverkstæði við norðanvert Boston. Við erum síðan með tvö netaverkstæði á Nýfundnalandi í Kanada, annað undir merkjum Von, hitt undir merkjum Hampiðjunnar.

Síðan erum við með fjögur netaverkstæði í Grænlandi, og svo erum við með fyrirtæki á Írlandi, Noregi, Danmörku, í Kaliningrad í Rússlandi, í Litháen og síðan í Ástralíu og loks tvö netaverkstæði á Nýja Sjálandi. Hér á Íslandi er við svo með móðurfélagið Hampiðjan ehf., og svo dótturfélagið Fjarðarnet, en á Íslandi reka fyrirtækin netaverkstæði í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Neskaupstað, Akureyri og Ísafirði.“