Gert er ráð fyrir að um 1.655 fyrirtæki fari Beinu brautina sem er lausn við skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Upphaflega var gert ráð fyrir að milli fimm og sjö þúsund fyrirtæki færu þessa leið. Ástæða þess að svo miklu færri fyrirtæki geta fengið úrlausn sinna mála hjá lánastofnunum er að fyrirtæki verða að skulda 10 milljónir króna eða meira og því hentar þessi lausn ekki minnstu fyrirtækjunum og þeim sem skulda lítið. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að afmörkun bankanna við 10 milljónir sé þeirra ákvörðun en fyrir henni séu að hans viti skiljanleg rök. „Beina brautin byggir jú á ákveðinni greiningu á rekstrarforsendum, eignavirði og sjóðsstreymi og ekki alveg ljóst að leggja eigi í slíkt í öllum tilvikum þegar er um svo litla skuldsetningu að ræða og jafnvel einyrkjarekstur, þar sem hvort eð er er erfitt að meta þessa þætti,“ segir hann.