*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 10. nóvember 2004 14:57

Yfir 40% stofnfjár í SPRON hafa skipt um hendur

Ritstjórn

Viðskipti með stofnhlutabréf í SPRON hafa haldist fjörug og er nú svo komið að um 40% stofnhlutabréfa hafa skipt um hendur eða um 5.800 stofnbréf. Lætur nærri að verðmæti þessara viðskipta sé upp á 1,5 milljarð króna en viðskiptin hófust 30. september síðastliðin. Þegar viðskipti með bréfin fóru af stað gerðu menn ráð fyrir að allt að 50% bréfa gætu skipt um hendur en viðskiptin hafa verið heldur fjörugri en menn áttu von á. Gengi bréfanna hefur hækkað úr 5 í 6,8 þar sem það hefur haldist stöðugt um nokkurn tíma. Þegar KB banki falaðist eftir því að kaupa bréfin fyrir ári síðan bauð bankinn gengið 5,5.

Því hefur verið haldið fram að það séu fáir stórir aðilar sem eru að kaupa þessi bréf en í viðtali við Viðskiptablaðið í dag segir Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON, að það ekki rétt. Taldi hann nær að segja að um 40 mismunandi aðilar væru að kaupa þessi bréf og engin þeirra væri komin með yfir 5%. Þær reglur gilda um stofnfjármarkaðinn að viðskipti verða ávallt háð samþykki stjórnar SPRON. Þá er engum heimilt að eiga virkan eignarhlut í SPRON, 10% eða stærri, án samþykkis Fjármálaeftirlitsins. Hafi stjórn SPRON ástæðu til að ætla að kaup bréfa fari fram með þeim ásetningi að eignast virkan eignarhlut eða mynda einhverskonar hagsmunahópa, sem hafa það sama í huga, skal vísa málinu til Fjármálaeftirlitsins en ákvæði eru um að enginn aðili megi fara með meira en 5% atkvæða í SPRON.

Sjá nánar frétt í Viðskiptablaðinu í dag.

Stikkorð: Spron