Yfir 40 þúsund hafa séð Svartur á leik Ríflega 40 þúsund gestir hafa nú séð kvikmyndina Svartur á leik í kvikmyndahúsum hér á landi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins þýðir það rúmlega 40 milljónir króna í tekjur fyrir framleiðendur myndarinnar. „Þetta hefur gengið framar öllum vonum,“ segir Addi Knútsson, framkvæmdastjóri Filmus, annars framleiðanda myndarinnar, í samtali við Viðskiptablaðið. Opnun myndarinnar í kvikmyndahúsum hér á landi er sú þriðja stærsta á eftir Mýrinni og Bjarnfreðarson. Að sögn Adda stendur til að taka myndina til sýningar í Bretlandi, Þýskalandi og Benelux löndunum á næstu misserum. Þá standa vonir til að myndin verði sýnd í Frakklandi og á Norðurlöndunum.