Mikil uppsveifla er hjá Netflix um þessar mundir, en nú nota yfir 50 milljónir streymiþjónustuna í fjörutíu löndum. Það hefur orðið mikil aukning í notendafjölda undanfarið en hún stafar að mestu af aukningu utan Bandaríkjanna.

Tekjur námu 1,34 milljörðum dollara á öðrum ársfjórðungi þessa árs, eða sem nemur 140 milljörðum íslenskra króna, sem er 36,9% aukning frá því í fyrra. Streymiþjónustan utan Bandaríkjanna er að skila hagnaði sem nemur 307 milljónum dollara, eða um 35 milljörðum íslenskra króna, en það er tvöföldun frá því í fyrra.

Hlutabréfaverð er nú 1,15 dollarar sem er hærra en spáð var fyrir um. Netflix mun halda stækkun sinni áfram í haust, en í september munu notendur geta nýtt sér þjónustuna í Þýskalandi, Frakklandi, Austurríki, Sviss, Belgíu og Lúxembúrg.