Föstudaginn 23. mars fljúga yfir 550 starfsmenn Eimskips og dótturfélaga út í óvissuferð. Í frétt frá félaginu kemur fram að mikil spenna ríkir meðal starfsfólks um hvert ferðinni sé heitið. Sumar deildir hafa komið af stað léttu veðmáli um fyrirhugaðan áfangastað og leita allra leiða til að komast að því hvert ferðinni sé heitið.

Þessi óvissuferð er sú þriðja sem Eimskip hefur boðið starfsfólki sínu upp á en í fyrra var ferðinni heitið til Montreal í Kanada og árið 2005 var haldið til Búdapest í Ungverjalandi. Hafa því yfir 1.500 starfsmenn Eimskip og makar flogið út í óvissuna á vegum félagsins. Mælist þessi ferð mjög vel fyrir meðal starfsfólks Eimskips og komast færri með en vilja.

Flogið verður á Boeing 747-300 vél Air Atlanta Icelandic sem einnig er dótturfélag Eimskips.

Eimskip og dótturfélög munu halda úti allri sinni þjónustu á meðan en þó gæti þetta haft lítilsháttar áhrif og eru viðskiptavinir beðnir velvirðingar á því segir í fréttinni. Starfsfólk Eimskips kemur til baka sunnudaginn 25. mars.