Flestir ferðamenn sem komu til landsins sumarið 2011, eða 70,5%, greiddu fyrir aðgang að sundstöðum eða náttúruböðum, eins og Bláa lónið flokkast undir. Þetta kemur fram í könnun sem Ferðamálastofa lét MMR gera þar sem spurt var um hvaða afþreyingu erlendir ferðamenn greiða fyrir.

Næst á eftir sundlaugunum greiddu 46,2% ferðamanna fyrir aðgang að söfnum eða sýningum, 35,5% fyrir skoðunarferð með leiðsögn, 34,0% fyrir hvalaskoðun og 22,0% fyrir dekur og vellíðan.

Fyrir hestaferð greiddu 17,3%, bátsferð 16,5%, jökla- eða vélsleðaferð 15,2% og göngu- eða fjallaferð með leiðsögn 14,5%.

Um svarendur

Konur voru 51,2% svarenda en karlar 48,8%. Meðalaldurinn var 39,6 ár en fjölmennastir voru svarendur á aldursbilinu 25-34 ára (30,6%).

Af einstaka þjóðernum voru flestir svarendur bandarískir (13,7%), þýskir (13,3%) og franskir (9,2%). Skipt eftir markaðssvæðum voru 43,8% svarenda frá Mið- og Suður- Evrópu, 20,2% frá Norðurlöndunum, 17,7% frá N-Ameríku, 8,6% frá Bretlandi og 9,7% frá öðrum löndum.

Tæp 47% svarenda voru með há laun eða laun yfir meðallagi, rúm 39% með laun í meðallagi og tæp 14% með lág laun eða laun undir meðallagi.