Fyrirtæki í Danmörku flytja í hið minnsta 5 milljarða danskra króna eða rúmlega 81 milljarð íslenskra króna í skattaskjól á aflandssvæðum á ári hverju. Jafngildir það um 10% af skattstofni fyrirtækjaskatts í Danmörku. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar hagfræðistofnunar Kaupmannahafnarháskóla og University of California, Berkeley. DR Nyheder greinir frá .

„Fyrir þessa upphæð væri hægt að fjármagna helminginn af öllum löggæslukostnaði eða þrefalda slökkviliðsþjónustuna,“ segir Ludvig Wier, doktorsnemi sem tók þátt í rannsókninni. „Við höfum aðeins séð lítið brot af þeim skattaundanskotum sem eru að eiga sér stað.“

Markaðshlutdeild fjölþjóðlegra fyrirtækja á alþjóðavísu hefur vaxið gríðarlega undanfarna þrjá áratugi og notkun skattaskjóla sömuleiðis. Skattaundanskot slíkra fyrirtækja nemur rúmlega 80 þúsund milljörðum króna á hverju ári.

Wier segir að megingalli skattkerfis er að það er úrelt og gamalt. „Núverandi kerfi er 100 ára gamal og algjörlega ófært um að meðhöndla nútímaleg alþjóðleg fyrirtæki. Þegar kerfið var hannað voru fjölþjóðleg fyrirtæki ekki til.“ Afleiðingin sé sú að margar þjóðir keppast um að lækka fyrirtækjaskatta til að koma í veg fyrir að hagnaður alþjóðlegra fyrirtækja leiti í aflandssvæði.

Skattar eru einna hæstir í heiminum í Danmörku enda eru þeir notaðir til að fjármagna velferðarríkið. Þannig er tekjuskattur einstaklinga 55,8% og fyrirtækjaskattur 22%.

Wier telur að eina lausnin á skattaundanskotum sé að einfalda skattkerfið þannig að fyrirtæki séu skattlögð samkvæmt því hvar viðskiptavinir þeirra eru staðsettir.

„Ef 5 prósent af þinni veltu er í Danmörku, þá á að skattlegga 5 prósent af tekjunum þínum. Danmörk er fullkomlega frjálst til að gera þetta og það myndi stöðva notkun skattaskjóla vegna þess að þú getur ekki flutt viðskiptavini í skattaskjól,“ segir Wier.