Áætlað er að yfir 900 nemendur verði í Háskóla Íslands á árinu 2011 án þess að þeim fylgi fjárveiting. Fjárveitingar til háskólans verða á árinu skornar niður um 475 milljónir króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HÍ. Segir að til að bregðast við niðurskurði á árinu 2011 leggi háskólaráð megináherslu á að verja kjarnastarfsemi skólans. það er kennslu og rannsóknir, og standa vörð um gæði háskólastarfsins. „Á fundi sínum 17. desember s.l.  ákvað háskólaráð að undirbúa hugsanlegar aðgangstakmarkanir í Háskóla Íslands  vegna þess að  mun  fleiri sækja nú um nám en ríkisvaldið greiðir fyrir til skólans.  Fjölgun nemenda veldur skólanum verulegum viðbótarkostnaði  vegna kennslu, húsnæðis  og margvíslegrar þjónustu.  Álag hefur aukist  gífurlega á starfsfólk og alla aðra þætti skólastarfsins.  Við þessu verður að bregðast.  Skólinn telur nauðsynlegt að gripið verði til ráða til að tryggja hagsmuni nemenda og gæði námsins.“

Fækka starfsfólki og lækka starfshlutfall

Segir að frekari aðhaldsaðgerðir muni m.a. fela í sér fækkun starfsfólks og lækkun starfshlutfalls. „Kennsluálag eykst hjá kennurum sem ekki hafa með höndum umfangsmikil stjórnunarstörf og gripið verður til enn aukins aðhalds í öllum rekstri og hagræðingar í kennslu til að mæta niðurskurðinum á komandi ári.  Mikil áhersla verður lögð á að verja áfram rannsóknir við skólann.

Háskóli Íslands hefur óskað eftir því að fá heimild til að hækka 45 þúsund króna skrásetningargjald við skólann sem hefur verið óbreytt frá árinu 2005.  Miðað við verðlagsforsendur fjárlaga frá 2005 væri gjaldið nú  70.000 kr.  Lagabreytingu þarf til að heimila hækkun og hefur beiðni Háskóla Íslands um hækkun verið synjað af hálfu stjórnvalda.  Háskóli Íslands leggur mikla áherslu á að þessi ákvörðun verði tekin til endurskoðunar, en um leið að skrásetningargjaldið verði lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna,“ segir í fréttatilkynningu.