Að meðtöldum eignarhlut Íslandsbanka í BNbank þá hafa eigendur að yfir 98% hlutafjár samþykkt yfirtökutilboð Íslandsbanka í BNbank (Bolig- og Næringsbanken ASA) í Noregi. Tilboðstímabilið hefur verið framlengt um tvær vikur, til og með 30. desember, til þess að gefa þeim hluthöfum sem ekki hafa þegar samþykkt tilboðið kost á því að gera það áður en til innköllunar á bréfunum kemur.

Kaupin eru háð heimild lögbærra yfirvalda í Noregi og á Íslandi. Þá liggja niðurstöður áreiðanleikakönnunar ekki fyrir. Engar athugasemdir bárust frá samkeppnisyfirvöldum í Noregi og hefur Íslandsbanki þegar lagt inn umsókn til norska fjármálareftirlitsins og norska fjármálaráðuneytisins vegna kaupanna.

Íslandsbanki hóf hlutafjárútboð á föstudag og lýkur því 4. janúar. Tilgangurinn með hlutafjáraukningunni er tvíþættur, annarsvegar að fjármagna kaupin á BNbank og hinsvegar að styrkja eiginfjárstöðu bankans vegna mikils innri vaxtar í útlánum bankans.

"Ég er mjög ánægður með þau jákvæðu viðbrögð sem Íslandsbanki hefur fengið í Noregi við tilboðinu í BNbank," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka +i tilkynningu félagsins. ?Viðskiptalífið og almenningur hefur tekið okkur sérstaklega vel og umræða í fjölmiðlum verið afar jákvæð. Með kaupum á BNbank hefur Íslandsbanki náð að búa sér til sterkari grunn til arðbærs vaxtar í Noregi. Tækifærin eru fjölmörg og við ætlum okkur að nýta þau."

Íslandsbanki hefur skilgreint Noreg og Ísland sem heimamarkaði sína og hyggst leggja áherslu á vöxt á norska markaðnum. BNbank er afar samkeppnishæft og vel rekið fjármálafyrirtæki, sem náð hefur góðum árangri og fellur vel að stefnu Íslandsbanka. Kaupin á BNbank munu tvöfalda útlán og innlán Íslandsbankasamstæðunnar.