Alls eru 1149 ríkisstarfsmenn skipaðir eða ráðnir til starfa ótímabundið, án gagnkvæms uppsagnarfrests. Það þýðir að þessir starfsmenn eru æviráðnir. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á Alþingi.

Heildarfjöldi starfsmanna ríkisins er 21.102. Af þeim eru 1.149 skipaðir fyrir 1. júlí 1996. Eftir þann tíma er enginn lengur skipaður ótímabundið heldur aðeins til fimm ára, að undanskildum hæstaréttar- og héraðsdómurum, og 37 ráðnir til starfa ótímabundið án gagnkvæms uppsagnarfrests.

Flestir æviráðnir starfsmenn starfa hjá Háskóla Íslands og Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 181 eru æviráðnir hjá Háskóla Íslands en 109 hjá lögreglunni.