Áætlað er að unnt verði að bólusetja tæplega 190 þúsund einstaklinga hér á landi fyrir júnílok með bóluefnum frá Pfizer, AstraZeneca og Moderna. Mögulegt er að bóluefni frá fleiri framleiðendum muni bætast í hópinn á öðrum ársfjórðungi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Í tilkynningunni segir að öllum 16 ára og eldri verði boðin bólusetning við veirunni sem er orsök Covid-19 faraldursins. Það þýðir að rúmlega 280 þúsund verði á lista yfir þau sem ber að bólusetja. Landsmenn eru þó, eðli málsins samkvæmt, eilítið fleiri. Í tilkynningunni segir að 190 þúsund fyrir lok júní sé nokkuð meira en áður var gert ráð fyrir og muni þar mestu um viðbótarskammta frá Pfizer sem væntanlegir eru á öðrum ársfjórðungi.

Því til viðbótar er gert ráð fyrir því að bóluefni Janssen og Curevac verði send Evrópsku lyfjastofnuninni innan skamms og skömmu síðar geti þau hlotið markaðsleyfi. Gangi þær ætlanir eftir gætu þau bæst við á næsta ársfjórðungi í flóru bóluefna. Að síðustu er unnið að samningum um kaup á efni frá Novavax og mun Ísland fá hlutdeild í því þegar þar að kemur.

„Sóttvarnalæknir vinnur að gerð bólusetningardagatals á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um afhendingu bóluefna á næstu mánuðum. Þar verða birtar upplýsingar um forgangshópa og hvenær einstaklingar í hverjum hópi geta vænst þess að fá boð um bólusetningu. Þessum upplýsingum er fyrst og fremst ætlað að veita fólki grófar upplýsingar um framvindu bólusetninga gegn COVID-19 hér á landi. Upplýsingarnar verða birtar með fyrirvara um mögulegar breytingar á áætlunum um afhendingu bóluefna,“ segir í tilkynningunni.