Nýskráningar ökutækja á Íslandi ríflega tvöfölduðust milli áranna 2014, úr 12 þúsund í tæplega 26 þúsund árið 2017 samhliða miklum vexti ferðaþjónustunnar að því er Hagsjá Landsbankans hefur tekið saman. Í janúar voru yfir 55% allra nýskráðra bíla raf- eða tvinnbílar.

Á sama tíma hefur hlutfall nýskráðra svokallaðra vistvænna bíla aukist úr 5% árið 2014 í rúmlega 30% í fyrra. Þannig voru 480 raf- eða tvinnbílar nýskráðir hér árið 2014 en tíföldun var til ársins 2018 þegar rúmlega 4.800 slíkir bílar voru nýskráðir.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær fækkaði nýskráningum bíla í janúar á þessu ári frá fyrra ári, en þar af fækkaði nýskráningum bílaleiga um 27,3%. Á síðasta ári fækkaði skráningum almennt um 36% frá árinu 2018, en á sama tíma fækkaði ferðamönnum um 14% milli ára.

Á sama tíma fækkaði nýskráningum raf- og tvinnbíla minna eða um 13% og er útlit fyrir að vinsældir þeirra aukist. Þannig voru eins og áður segir 55% allra bíla sem nýskráðir voru í janúar raf- eða tvinnbílar, eða 451 bíll. Á sama tíma fór hlutfall nýskráðrabíla sem ekki nota eingöngu hefðbundið jarðefnaeldsneyti yfir 61%, og er þá væntanlega munurinn falinn í metanbílum eða öðrum slíkum lausnum.

Viðskiptablaðið hefur fjallað um að það stefni í að margföldun verði á rafbílum frá bílaframleiðandanum Tesla á árinu, eftir metfjölda pantana á nýja Model 3 bílnum frá því að fyrirtækið opnaði útibú hér á landi í haust.

Loks var örlítill samdráttur í eldsneytiskaupum Íslendinga í fyrra, eða um 0,5%, miðað við fast eldsneytisverð, sem þó sé ekki mikil breyting er til marks um minni notkun bensín- og díselbifreiða. Spáir greiningardeild Landsbankans áframhaldandi samdrætti í eldsneytiskaupum á næstu misserum.