„Við undirritaðir tilkynnum hérmeð, að við höfum opnað verzlun á Laugavegi 1 undir nafninu Vísir. Verzlunin er vel byrg af matvörum, kaffi, sykri, ágætu smjörlíki, niðursuðuvörum og kryddi, appelsínum, eplum og vínberum. Brent og malað kaffi hvergi betra. Vindlar, tóbak, sælgæti o.m.fl. Reynið, áður en þér kaupið annarstaðar.“

Svona hljóðaði frétt sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 4. desember 1915 og tilkynnti um opnun nýrrar búðar við Laugaveg 1. Undirritaðir voru Guðmundur Ásbjörnsson og Sigurbjörn Þorkelsson, stofnendur búðarinnar.

Nú, rúmum hundrað árum síðar, lokar seinasta kafla þessarar merku búðar sem um er rætt. Verslunin Vísir, sem um heyrir og var neðst á Laugaveginum og jafnframt ein elsta verslun landsins, var nýverið tekin til gjaldþrotaskipta. Því lýkur formlegri sögu verslunarinnar sem hafði verið til húsa á sama stað í yfir hundrað ár.

Í Lögbirtingablaðinu 4. október kemur fram að bú búðarinnar yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Óskað var eftir því þann 21. september, en skiptafundur fer fram 13. desember. Skiptastjóri búsins er Pétur Steinn Guðmundsson hdl. Gerðarbeiðendur voru tveir að sögn Péturs Steins: Tollstjóri og Lífeyrissjóður verslunarmanna.

Hundrað ára saga

Í desember fyrra fagnaði verslunin Vísir hundrað ára afmæli sínu en hætti starfsemi í febrúar á þessu ári – en hún hafði verið í eigu Sigurðar Guðmundssonar frá árinu 2011. Boðið var upp á veglegar hnallþórur og nýlagað kaffi við það tilefni.

Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpið á síðasta ári, þá sagði Sigurður Guðmundsson, sem er eigandi verslananna sem reknar eru undir nafninu The Viking, að hann hét því að reka búðina óbreytta fram að hundrað ára afmæli hennar. Hins vegar tók hann einnig fram að rekstur verslunarinnar væri „í járnum“ í viðtali við Morgunblaðið. Sigurður stóð við orð sín og búðin hætti ekki rekstri fyrr en í febrúar árið 2016.

Minja- og matvælaverslun í stað Vísis

Búðin Icemart er nú á Laugavegi 1. Þar er lögð áhersla á minjagripi og íslensk matvæli sem eru framleidd vítt og breitt um landið, að því er kemur fram í viðtali við Sigurð við RÚV.

Mikið er um rekstur minjagripabúða í miðborg Reykjavíkur, og þá sérstaklega á Laugaveginum. Skýringa á þessari miklu aukningu má reka til mikillar aukningar ferðamanna á landinu – sem vilja ólmir eiga minjagripi frá för sinnar til lands íss, elds og lunda.

Það virðist því vera ljóst að það verði ekki lengur hægt að nálgast kaffi og ágætt smjörlíki á Laugavegi 1 eins og kvað á í auglýsingunni, heldur frekar lundastyttur og hina ýmsu minjagripi.